Ítalía: Eggaldin með parmesan

MELANZANE 

alla parmigiana

MELANZANE

alla parmigiana

11/197


Image

melanzanealla Parmigiana eða eggaldin með parmesan er einn af mínum uppáhalds réttum. Ég var með ítalska veislu á jóladag þar sem hvítlaukssúpa og crostini alla caprese voru í forrétt og Melanzane alla Parmigiana var í aðalrétt. Þetta er virkilega sparilegur réttur og það tekur talsverðan tíma að elda hann en ég lofa ykkur að það er vel þess virði.

Þessi eggaldinréttur er mjög bragðmikill og saðsamur. Það er eiginlega nauðsynlegt að hafa með honum eitthvert ferskt meðlæti eins og til dæmis grænt salat með léttri dressingu.

Það er auðveldlega hægt að gera þessa uppskrift veganmeð því að nota vökva af kjúklingabaunum (aquafaba) í staðinn fyrir egg og nota vegan parmesan og mozzarella.

Það er einnig hægt að gera léttari útgáfu af réttinum. Þá sleppið þið egginu og brauðmylsnunni og penslið eggaldinsneiðarnar með ólífuolíu og bakið þær í ofninum þar til þær verða mjúkar í gegn.

Óhollari útgáfan er samt miiiikið betri.

(Ég gleymdi því miður að mæla hvað ég notaði mikið af brauðmylsnu í réttinn en það voru í það minnsta 2 dl. Mér þykir best að nota heimatilbúna brauðmylsnu úr súrdeigsbrauði í þennan rétt.)

Image

Image

Innihaldsefni

 

  • Eggaldin (ca. 250 gr)
  • 1 -2 mozzarelakúlur *
  • 40 gr rifinn parmesan
  • Góð brauðmylsna með ½ tsk af timían **
  • 1 egg ***
  • Fersk basilíka
  • ½ tsk af timían
  • Ólífuolía
  • 1 dós af plómutómötum
  • 3 hvítlauksrif
  • 25 gr af söxuðum lauk
  • Lárviðarlauf
  • ½ tsk sykur
  • Salt og pipar

* Ég notaði eina en það má alveg bæta við og nota tvær.
**Helst heimatilbúin.
*** Frá hænum sem njóta útiveru



Image

Leiðbeiningar

 


1.
Byrjið á því að skera eggaldinið í ca. 1 ½ cm sneiðar. Stráið salti á sneiðarnar og pressið úr þeim vökvann í ca. klukkustund. Leggið til dæmis viskustykki yfir og notið bretti og þungan pott. Þetta er gert til þess að ná vökva og beiskju úr grænmetinu.

2.
Búið til tómatsósuna: Steikið laukinn og hvítlaukinn í ólífuolíu þar til hann verður gullinbrúnn og mjúkur. Kreistið plómutómatana í höndunum þar til þeir ná þeirri áferð sem þið viljið í sósuna. Bætið tómötunum, timían, lárviðarlaufi, sykri, salti og pipar út í pottinn/pönnuna og leyfið sósunni að malla í ca. hálftíma. Bætið við ferskri basilíku eftir smekk.

3.
Pískið eggið í skál og setjið brauðmylsnuna á disk. Hitið olíu á pönnu og hitið ofninn í 225. gráður.

4.
Þekið eggaldinsneiðarnar með eggi og brauðmylsnu. Varist að setja of mikið af eggi og brauðmylsnu. Ef það er gert þá steikjast sneiðarnar verr og verða of þungar. Steikið í ólífuolíu þar til eggaldinsneiðarnar verða gullinbrúnar og alveg mjúkar í gegn. Það tekur ca. 10-15 mínútur. Eldunartími getur auðvitað verið mismunandi á milli eldavéla og mismunandi eldunaráhalda svo það er mikilvægt að fylgjast vel með svo þær brenni ekki. Leggið sneiðarnar á eldhúspappír eða viskustykki sem drekkur í sig umfram olíu.

5.
Takið þrjár eggaldinsneiðar, setjið 1-2 tsk. af tómatsósu á hverja sneið, eina sneið af mozzarella og parmesan eftir smekk. Raðið sneiðunum upp í stafla og stráið meiri parmesan yfir.

6.
Bakið í ofni í ca. 15 mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður.

7.
Stráið nýmöluðum svörtum pipar og ferskri basilíku yfir réttinn

8.
Berið fram með fersku grænu salati og meiri basilíku, tómatsósu og rifnum parmesan.

Hvítlauksbrauð gæti líka passað vel með.

Aðalréttur fyrir 2-3