Spaghetti pangrattato

SPAGHETTI CON PANGRATTATO

Frá Ítalíu

SPAGHETTI CON PANGRATTATO

Frá Ítalíu

11/197


Image

Lágkolvetnalífstíllinn er ekki í miklu uppáhaldi hjá mér og þessi ítalska uppskrift er ekkert nema kolvetni á kolvetni ofan.

Spaghetti con Pangrattato er mjög einfaldur og heiðarlegur ítalskur sveitamatur. Pangrattato, steikt krydduð brauðmylsna, er stundum kölluð parmesan fátæka mannsins. Uppskriftin á uppruna sinn á suður Ítalíu þar sem fátæklingar gripu til þess ráðs að steikja brauðmylsnu með kryddum til þess að nota í stað Parmesan út á pastarétti.

Þegar ég kaupi súrdeigsbrauð í bakaríi þá klárast það aldrei alveg allt og ég bý alltaf til grófa brauðmylsnu úr restinni. Mér þykir mjög þægilegt að elda þennan rétt eftir annasaman dag því ég á alltaf til svona brauðmylsnu tilbúna í frystinum.

Í þennan rétt er best að nota grófa heimagerða brauðmylsnu og það er tilvalið að nota gamalt brauð sem er orðið svolítið þurrt. Enga matarsóun hér!

 

Image

Image

Innihaldsefni

 

  • Góð brauðmylsna (best er að nota heimagerða mylsnu)
  • 200 gr. gott spaghettí
  • 1-2 litlar lífrænar sítrónur eins og fást í Frú Laugu (1-2 tvær því það er mjög mikið smekksatriði hversu mikil sítróna má vera í réttinum og best er að prófa sig áfram og smakka réttinn til)
  • 100 gr. gróf brauðmylsna (t.d. úr góðu súrdeigsbrauði en athugið að gróft brauð henatr illa í þessa uppskrift)
  • 7 msk extra virgin ólífuolía
  • 3 eða fleiri hvítlauksgeirar
  • Ferskt timían eftir smekk
  • Steinselja
  • Þurrkaður eða ferskur rauður chilipipar
  • Salt og pipar


Image

Leiðbeiningar

 


1.
Í þennan rétt er best að nota grófa heimagerða brauðmylsnu og það er tilvalið að nota gamalt brauð sem er orðið svolítið þurrt. Í þessa brauðmylsnu notaði ég þrjár stórar súrdeigsbrauðsneiðar. Setjið brauðsneiðarnar í matvinnsluvél og búið til frekar grófa mylsnu.

Dreifið brauðmylsnunni á bökunarpappír og bakið í ca. 20 mínútur við 100 gráður. Fylgist vel með og gætið þess að mylsnan dökkni ekki of mikið. 

2.
Hitið 4 msk. af ólífuolíu á pönnu við vægan hita. Steikið brauðmylsnuna með timían þar til hún verður fallega gulbrún og stökk. Það tekur ca. 5 mínútur en á síðustu mínútunni skuluð þið bæta einu söxuðu hvítlauksrifi út á pönnuna.

3.
Saltið og piprið og setjið brauðmylsnuna á eldhúspappír sem dregur í sig olíuna.

4.
Sjóðið spaghetti samkvæmt leiðbeiningum á pakka. Hellið vatninu af spaghettíinu en geymið nokkrar matskeiðar af suðuvatninu.

5.
Hitið 3 msk. af ólífuolíu á pönnu og steikið 1-2 hvítlauksrif (eða fleiri eftir smekk) og ferskt eða þurrkað chili við vægan hita.

6.
Setjið spaghettíið út á pönnuna og blandið því saman við olíuna. Bætið soðvatninu saman við og setjið safa og börk úr 1-2 litlum sítrónum yfir spaghettíið (Það er mjög mikið smekksatriði hversu mikil sítróna má vera í réttinum).

7.
Stráið pangrattato og ferskri steinselju yfir spaghettíið . Bætið við ólífuolíu, sítrónusafa, svörtum pipar, chili og steinselju eftir smekk.