Japanskar nýársnúðlur

JAPANSKAR

Nýársnúðlur

29/197


Image
Image

JAPANSKAR

Nýársnúðlur

29/197

Gleðilegt nýtt ár!Nokkrum vikum of seint... Áramótaheitið mitt var að sigrast á fullkomnunar - og frestunaráráttunni og það gengur ekkert sérstaklega vel sem af er liðið ári. Ég ætlaði að birta þessa uppskrift á nýársdag en ofangreindar áráttur kom í veg fyrir það. Fyrir vikið er ég þó búin að elda og stílísera réttinn margoft.  Fyrir áramót leitaði ég logandi ljósi að spennandi hefðbundinni nýársuppskrift og rakst á toshikoshi soba! Í Japan er löng hefð fyrir því að borða þennan rétt til að fagna nýju ári. Hver skál af toshikoshi soba er þrungin merkingu en núðlurnar tákna von um langlífi, gæfu og gengi.

Í sinni hefðbundnu og einföldustu mynd samanstendur rétturinn bara af dashisoði, sobanúðlum og vorlauk en það er hægt að gera súpuna matarmeiri með því að bæta við allskyns meðlæti. Ég bætti við niðurskornu hnúðkáli (hefðbundið er að nota rifna kínahreðku), sesamfræjum og gufusoðnu gyoza.

Toshikosho soba er einfaldur og meinhollur réttur sem á sér nú fastan sess í eldhúsinu mínu.

あけましておめでとう。

Image
Minna

Kolefnisspor


 • Kombu eða stórþari?

  Í japanskri matargerðarlist er oft notaður þari sem nefnist kombu og fæst hann innfluttur í asísku búðunum og víðar. Til að minnka kolefnisspor þessarar uppskriftar skipti ég kombu út fyrir stórþara sem er handtýndur á Íslandi.

 • Heimagert tempura í stað gyoza

  Ekki gera eins og ég sem keypti frosið gyoza sem ég sá svo að er innflutt alla leið frá Tælandi. Tempura grænmeti er hefðbundið meðlæti með toshikoshi soba og það er auðvelt að gera það heima. Ég geri það næst!
Image
Minni

Matarsóun


 • Láttu vorlaukinn vaxa aftur

  Skerðu hvíta partinn af laukunum og settu þá sem hafa einhverjar rætur í glas með vatni þannig að þeir rétt standi upp úr. Settu glasið nálægt glugga og skiptu um vatn daglega. Laukarnir fara fljótlega að vaxa og þá klippirðu bara græna partinn af eftir þörfum! Laukarnir vaxa aftur nokkrum sinnum (og jafnvel út í hið óendanlega) ef þú skiptir daglega um vatn.

 • Endurnýttu þarann

  Þarinn geymist í ísskáp í nokkra daga og það má líka frysta hann. Þarann má nota í meira soð eða til að setja í bleyti með baunum. Svo getið þið prófað að búa til Kombu Tsukudani sem er einhverskonar þarasalat. Þið getið prófað það en ég ætla alls ekki að gera það.Image

Image

toshikoshi soba

 

 • Tvö knippi af soba núðlum (ca. 150 gr.)   
 • 80 ml japönsk sojasósa
 • 50 ml mirin (sætt hrísgrjónavín)
 • Sykur eftir smekk (ég notaði heila matskeið) 
 • 2 vorlaukar (fleiri ef þeir eru mjög litlir)
 • Grænmetis gyoza (fæst frosið í flestum verslunum)
 • Ristuð sesamfræ

Einnig gott að bæta við:

 • Tófúbitar
 • Ferskir shiitake sveppir
 • Tempura grænmeti í stað gyoza


Image

Dashi soð

 

 • 500 ml. vatn
 • Nokkrir þurrkaðir shiitake sveppir 
 • 1 vænt blað af kombu eða 3 - 4 af íslenskum stórþara 

Image

Leiðbeiningar


 

1. Soðið 

Soðið má undirbúa daginn áður með því að setja shiitake sveppina og þarann í ílát með 500 ml. af vatni og geyma í ísskáp. Þannig verður soðið bragðmeira en getur þó orðið svolítið slímugt. Mér finnst betra að útbúa bara ferskt dashi soð með því að láta vatnið í pott og sveppina út í og hita vel. Það á ekki að láta soðið sjóða. Þegar sveppirnir hafa fengið að malla aðeins bæti ég þaranum út í og hita soðið vel án þess að sjóða. Veiðið svo sveppina og þarann upp úr og geymið endilega til að annara nota. 

 

2. Bragðbætið soðið

Bætið sojasósu, mirin og sykri út í og hitið vel. Það má svo sem sleppa sykrinum en það myndi aldrei láta mér detta til hugar. 

 

3. Soba núðlurnar

Sjóðið núðlurnar samkvæmt leiðbeiningum á pakka. Suðutími getur verið breytilegur á milli tegunda en ekta sobanúðlur þarf að skola vel eftir suðu þar sem þær eru svo sterkjuríkar.  

 

4. Skálin

Skiptið núðlunum í tvær skálar (eða eina... það má líka borða þetta einn) og hellið soði yfir. Skreytið með fallega söxuðum vorlauk og hverju sem hugurinn girnist.

 

5. Sesamfræ

Þurrristið sesamfræ á heitri pönnu þar til þau fara að ilma. Stráið þeim svo ríflega yfir núðlurnar. 

 

6. Gyoza 

Það er einfalt og þægilegt að nota frosið gyoza með grænmeti og tófúi. Gufusjóðið það bara  í nokkrar mínútur eða steikið á pönnu beint úr frystinum. Það er gott að setja þá í skálina eða bara hafa til hliðar.  

Nægir í tvær skálar af toshikoshi soba.

いただきます