Ítölsk hvítlaukssúpa

ZUPPA D'AGLIO

Frá Ítalíu

ZUPPA D'AGLIO

Frá Ítalíu

11/197


Image

þessiítalska hvítlaukssúpa kemur virkilega á óvart og hún er mun ljúffengari en hún lítur út fyrir að vera. Í súpunni er bakaður hvítlaukur, rjómi, smjör og parmesan ostur. Zuppa D'aglio er bragðmikil og mjög saðsöm súpa sem hentar vel sem sparilegur forréttur. Crostini Alla Caprese passar einstaklega vel með.

Ég notaði rjóma frá Biobú en hér á landi eru Biobú og Skaftholt í Gnúpverjahreppi einu framleiðendur lífrænna mjólkurafurða. Á vefsíðu Biobús er framleiðslunni svo lýst að velferð dýra sé eitt megin þema lífrænnar framleiðslu. Höfuðreglan er sú að húsdýrin hafi þá aðstöðu að geta notið eðlislægrar hreyfingar og hafi aðstöðu til útiveru allt árið um kring. Þar er sagt að lífrænn landbúnaður ætli dýrum betri aðbúnað en lög og reglur segja almennt til um. Mjólkurkýr sem eru bundnar á bása yfir vetrartímann eiga að komast út eins oft og kostur er og aðstæður leyfa. Þær eiga að hafa nægt pláss til að hreyfa sig frjálslega, njóta útiveru allan ársins hring, eiga mjúkt og þurrt legupláss, hafa næga birtu og félagsskap af hver annari. Allt fóður á að vera lífrænt ræktað og sem náttúrulegast. Þá eiga kálfar að fá að vera hjá móður fyrstu vikuna eftir burð.

Hér á landi eru því miður afar fáir valkostir í boði fyrir þá sem vilja kaupa lífrænt vottaðar eða velferðarvottaðar dýraafurðir. Nú eru á Íslandi að minnsta kosti tvö mjólkurbú þar sem kýrnar fá ekki einu sinni að njóta sumarbeitar. Það er afar slæmt að neytendur geti ekki sniðgengið þau bú sérstaklega.


Image

Innihaldsefni

 

  • 200 gr hvítlaukur
  • 500 ml rjómi frá Biobú
  • 1L af vatni
  • 1-2 stk grænmetisteningar
  • 100 gr. parmesan 
  • 20 gr. smjör
  • Skvetta af ólífuolíu
  • Salt og pipar eftir smekk


Image

Leiðbeiningar

 


1.
Afhýðið hvítlaukinn og pakkið honum vandlega inn í álpappír ásamt smjöri, svolitlu salti og skvettu af ólífuolíu.

2.
Bakið í ofni í klukkustund við 180 gráður. Hvítlaukurinn á að brúnast svolítið og verða mjúkur í gegn.

3.
Rífið niður 100 gr af parmesan osti.

4.
Setjið vatn, grænmetiskraft og rjóma í pott og látið suðuna koma upp.

5.
Bætið hvítlauknum og öllum vökvanum úr álpappírsbögglinum út í pottinn, maukið með töfrasprota og sjóðið í svolitla stund.

6.
Bætið við salti og pipar eftir smekk en varist að setja of mikið salt þar sem parmesan osturinn er mjög saltur.

7.
Bætið parmesan ostinum út í súpuna og leyfið henni að sjóða í ca. 3 mínútur. Hrærið stöðugt í pottinum á meðan.

8.
Berið fram strax!

 

Berið fram með góðu brauði eða Crostini Alla Caprese.

Hvítlaukssúpan er forréttur fyrir ca. 8 manns.