26/197
Þáer röðin komin að Ísrael. Það er vegna þess að ég vildi ólm prófa hina áhugaverðu samloku/pítu Sabich! Það eru íraskir gyðingar sem eiga heiðurinn af uppskriftinni og sagan segir að sabich sé fyrsti upprunalegi ísraelski rétturinn.
Sabich er ótrúlega djúsí og stórkostleg grænmetissamloka. Steikt eggaldin, Zhug (sterk kóríander & chilisósa), tahinisósa, kartöflur, harðsoðin egg, palestínskt salat, brakandi litlar sýrðar gúrkur, mangó chutney og léttsýrt rauðkál.
Það eru auðvitað til margar spennandi útgáfur af sabich. Ég hafði samband við matgæðinginn Björn Teitsson sem var á ferðalagi í Ísrael og píndi hann til að smakka ekta sabich og lýsa því fyrir mér. Sú útgáfa var svolítið frábrugðin þeirri sem ég prófaði að búa til og hljómaði mjög girnilega. Hans sabich var til dæmis með hummus, harissa, sítrónuolíu, tómatafræjum og myntu.
Ég prófaði að baka pítubrauðin sjálf og ó, það var þess virði. Þau dúnmjúku brauð eiga lítið skylt við þessi sem fást vacumpökkuð út í búð. Það var töfrum líkast að sjá pítubrauðin blása út í ofninum og mér leið eins og eldhúshetju.
Ég ætla ekki að ljúga að ykkur. Þetta tekur tíma og þarfnast undirbúnings (sérstaklega ef þið ætlið að baka pítubrauðin sjálf). En það er algjörlega þess virði. Þetta var páskamaturinn hjá grænmetisætunum á heimilinu og sló alveg í gegn. Í upprunalegu uppskriftinni eru egg en þetta er alveg jafn gott sem vegan réttur. Það er sniðugt að búa til stóran skammt svo hægt sé að nýta alla vinnuna í að minnsta kosti tvær máltíðir. Ég tek ekki fram neitt magn í uppskriftinni - það fer bara eftir smekk og þörfum.
Innihaldsefni
Pítubrauð
Ég mæli eindregið með því að prófa að baka þau heima.
Soðnar kartöflur
Steikt eggaldin
Harðsoðin egg
Frá hænum sem fá að vera úti og lifa lífinu lifandi.
Rauðkál
Palestínskt salat
Gúrka, tómatar, steinselja, sítrónusafi, ólífuolía, salt.
Litlar sýrðar gúrkur
Ég mæli með litlu sýrðu gúrkunum sem fást í Istanbul market í Ármúla. Þær eru crunchy, mjög saltar og alls ekkert sætar.
Amba eða mangó chutney
Ísraelsk amba sósa fæst ekki hér á landi en hægt er að nota mangó chutney í staðinn. Helst kryddað með fenugreek fræjum.
Kóríandersósa - zhug
Ferskt kóríander, grænn chilipipar, hvítlaukur, sítrónusafi og cumin.
Tahinisósa
Ljóst tahini, sítrónusafi, hvítlaukur, cumin, salt og cayenne pipar
Leiðbeiningar
1.
Ef þið ætlið að baka pítubrauðin sjálf er fyrsta skrefið að búa til deigið, láta það hefast í klukkustund, móta svo kúlur og leyfa þeim að hefast. Ég notaði þessa frábæru uppskrift sem ég fann á Serious Eats. Í þeirri uppskrift er notaður bökunarsteinn en ef ykkur skortir slíkan eldhúslúxus þá fann ég mjög sniðuga aðferð. Takið terracotta undirskálar af blómapottum (svona ómeðhöndlaðar rauðar leirundirskálar) og hitið þær vel í ofninum og bakið pítubrauðin á þeim!
2.
Því næst eru það sósurnar. Hér er uppskrift að kóríandersósunni zhug. Svo fann ég áhugaverða ísraelska uppskrift að tahinisósu. Þá er heill hvítlaukur (með hýði og öllu) settur í blandara með sítrónusafa og síaður út í sósuna. Uppskriftina má finna hér. (Ef þið viljið mildari tahinisósu þá er hægt að blanda jógúrt út í hana. Eða cashewhnetumauki ef þið eruð vegan.)
3.
Hvernig verður rauðkálið svona bleikt og fallegt eins og á myndinni? Eru hér photoshopbrögð í tafli? Nei, ég léttsýrði það bara með sítrónusafa. Skerið rauðkálið í mjóa strimla, kreistið vel af sítrónusafa yfir og saltið. Leyfið þessu að liggja í sigti í svolitla stund og skolið það svo aðeins með köldu vatni. Leggið til hliðar.
4.
Skerið sýrðu gúrkurnar í sneiðar eftir endilöngu.
5.
Útbúið palestínska salatið. Fræhreinsið tómata og gúrkur og skerið í litla bita. Fínsaxið fullt af steinselju og blandið öllu saman með skvettu af ólífuolíu og sítrónusafa. Saltið svo eftir smekk.
6.
Sjóðið kartöflur, harðsjóðið egg og skerið í sneiðar.
7.
Skerið eggaldin í þunnar sneiðar og steikið í mikilli olíu þar til þær verða gullinbrúnar, mjúkar í gegn og fallegar. Leggið sneiðarnar á hreint viskustykki eða eldhúspappír til að losna við umframolíuna.
8.
Skellið pítubrauðunum í ofninn. Hvort sem þið ætlið að baka þau sjálf eða eruð með tilbúin.
9.
Raðið öllu góðgætinu vandlega í pítubrauðið þannig að allt komist örugglega fyrir og setjið nóg af sósunum með!