Frakkland: Ratatouille (V)

Frakkland

Ratatouille

11/196


Nú er röðin komin að Frakklandi! Ratatouille er klassískur franskur sveitamatur sem flestir ættu að kannast við. Rétturinn er upprunninn í Nice í Suður Frakklandi og var upphaflega fátækramatur. Uppistaðan í réttinum eru eggaldin, kúrbítur og tómatar og ég mæli sérstaklega með þessum rétti fyrir þá sem elska eggaldin (eins og ég). Ratatouille er mildur réttur og bragðið af grænmetinu fær að njóta sín.

Það er gott að elda ratatouille þegar mann langar að dunda sér í eldhúsinu. Matseldin tekur nefnilega talsverðan tíma og útkoman er heimilislegur og góður sveitamatur. Fersk basilíka, góð ólívuolía, parmesan og baguette passa svo einstaklega vel með.


Innihaldsefni• Eggaldin (ég notaði 350 gr.)
• Kúrbítur (ég notaði 300 gr.)
• Paprika (ég notaði 200 gr.)
• 1 laukur
• Vel þroskaðir tómatar (ég notaði 250 gr.)
• 3 – 4 hvítlauksrif
• 1-2 dl maukaðir tómatar (ég notaði tómatgrunn úr íslenskum tómötum)
• 4 msk rauðvín
• Lárviðarlauf
• 2-3 msk fínt söxuð fersk basilíka
• 1 tsk timían
• ½ tsk rósmarín
• Örlítill sykur
• Ólívuolía
• Salt og pipar eftir smekk
Leiðbeiningar


1. Byrjið á því að grilla paprikurnar í ofninum. Það má líka nota ferskar paprikur og bæta þeim gróft skornum út á pönnuna í skrefi 6.

2. Fræhreinsið kúrbítinn.

3. Skerið eggaldin og kúrbít í ca. 1 ½ cm sneiðar. Stráið salti á sneiðarnar og pressið úr þeim vökvann í ca. klukkustund. Leggið til dæmis viskustykki yfir og notið bretti og þungan pott. Þetta er gert til þess að ná vökva og beiskju úr grænmetinu.

4. Afhýðið tómatana. Það má auðveldlega gera með því að skera kross ofan á tómatana, hella yfir þá sjóðandi vatni, bíða í smástund og smeygja svo hýðinu af.

5. Steikið eggaldinið í ólívuolíu þar til það verður mjúkt í gegn, takið af pönnunni og leggið til hliðar. Gerið það sama við kúrbítinn.

6. Steikið lauk og hvítlauk við vægan hita í 10 mínútur, bætið við smátt skornum tómötum, grillaðri papriku og maukuðum tómötum á pönnuna.

7. Bætið svo rauðvíni, kryddum, lárviðarlaufi, sykri, salti og pipar út í sósuna og leyfið henni að malla í svolitla stund.

8. Setjið eggaldinið og kúrbítinn aftur út á pönnuna, setjið lok yfir og leyfið réttinum að malla í um það bil 20 mínútur eða þar til allt grænmetið er orðið mjúkt í gegn.

9. Gott er að strá ferskri basilíku og parmesan yfir réttinn.

Berið fram með góðu brauði og salati.Couscous, pasta og kartöflur passa einnig vel með ratatouille.

3 – 4 skammtar

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

sixteen + 18 =