Vatnsmelónudrykkur frá Tonga

OTAI

Frá Tonga

OTAI

Frá Tonga

23/197


Image

Gleðilegtsumar kæru lesendur! Nú er kominn tími á sumarlegri uppskriftir á Eldhúsatlasnum og ég ætla að byrja á einni frá litla konungsdæminu Tonga í Kyrrahafi. Otai er frískandi og sumarlegur vatnsmelónudrykkur með kókosmjólk, ananas og límónusafa. Það er víst ekki þverfótað fyrir vatnsmelónum á þessari paradísareyju og íbúarnir drekka Otai til að svala þorstanum í steikjandi sumarhitanum.

Ég gerði ekki alveg hefðbundna uppskrift að Otai vegna þess að í Tonga væru ávextirnir stappaðir og blandað saman við kókosmjólk, limesafa og vatn. Ég set hinsvegar allt í blandara til að það sé auðveldlega hægt að drekka drykkinn með röri.

Það er hægt að gera drykkinn enn hollari og nota kókosvatn í stað mjólkur. Það er líka hægt að breyta Otai í rommkokteil og þá er gott að hafa aðeins meiri ananas, kókosmjólk og hunang eða sykur.

Image

Image

Innihaldsefni

 

  • Hálf vatnsmelóna (1000 gr. án hýðis)
  • 200 gr. ferskur ananas
  • ½ dl af feitri kókosmjólk eða kókosrjóma
  • Safi úr hálfri límón
  • Örlítið hunang
  • Svolítið kalt vatn
  • Klakar

Uppskriftin gefur 1,2 LImage

Leiðbeiningar

 


1.
Skerið ávextina í bita. Best er að nota kalda ávexti.

2.
Setjið öll innihaldsefnin í blandara og blandið í smástund. Það má alveg vera svolítið gróf áferð á drykknum. Bætið við vatni eftir þörfum og smakkið til með límónusafa, hunangi og kókosmjólk.

3.
Berið fram með fullt af klaka!

Þessi hlutföll eru alls ekkert heilög. Ég skoðaði margar uppskriftir og þær voru mjög ólíkar. Það má nota kókosvatn í stað mjólkur, mangó í staðinn fyrir ananas og bæta við sykri og vatni. Það má líka nota mikið meiri kókosmjólk eða sleppa henni og nota kókosvatn.