19/197
jæja það hlaut að koma að því að eitthvað misheppnaðist hrapallega. Frá því að eldhúsatlasinn opnaði hef ég prófað að elda 19 rétti frá 16 löndum og 6 heimsálfum. Hingað til hefur það verið ævintýralegt ferðalag þar sem ég uppgötva hvern stórkostlega réttinn á fætur öðrum. Ég var því full sjálfsöryggis og tilhlökkunar þegar ég ákvað að spreyta mig á heitri avocadosúpu frá litla eyríkinu Trinidad og Tobago. Hvað gæti mögulega farið úrskeiðis?!
Allt.
Allt fór úrskeiðis og ég horfði brostnum augum ofan í fullan pott af beisku grænu sulli og sór þess eið að sjóða aldrei avocado framar. En fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Í leiðinni lærði ég nefnilega að búa til karabískt kryddmauk sem nefnist green seasoning. Það er víst eins og salt í Trinidad og er notað í flesta rétti.
Í fyrstu var ég ekki alveg viss hvernig ég gæti notað þetta fagurgræna kryddmauk sem samanstendur meðal annars af kóríander, selleríi og timían. Það er frekar óvenjuleg blanda og bragðið er ansi sérstakt. Ég brá á það ráð að skrifa trinidadískum matarbloggara og biðja um leiðbeiningar. Hún Ria sagði mér að ég gæti sett green seasoning út í hvaða grænmetisrétt sem er og það væri mikið gert í Trinidad. Til dæmis er það notað í spínatréttinn Callaloo (sem ég ætla að elda við fyrsta tækifæri), á samlokur, sem grillmarinering fyrir grænmeti, út í baunarétti, súpur og pottrétti og steikt hrísgrjón.
Green seasoning er einnig notað í rétti sem eru innblásnir af indverskri matargerð eins og kjúklingabauna -og kartöflukarrí. Ég er búin að nota green seasoning í blómkálssúpu og steikt grænmeti og það var prýðisgott.
Uppskriftirnar að green seasoning eru víst jafn margar og eldhúsin á eyjunni. Aðaluppistaðan er kóríander (eða culantro), timían, vorlaukur, sellerí og hvítlaukur og svo má bæta ýmsu við eftir smekk. Ég bjó það til með miklum hvítlauk og chilipipar en það má alveg minnka magnið.
Innihaldsefni
- 1 búnt kóríander (lauf og stilkar)*
- 8 stilkar ferskt timían
- 3 - 4 vorlaukar
- 3 sellerístilkar
- 6 hvítlauksrif (eða eftir smekk)
- 3 grænir chilipiprar (eða eftir smekk)
- Safi úr einni límónu
- 1 tsk salt
- Svolítið vatn
* Í Trinidad er kryddjurtin culantro notuð í green seasoning en hún vex eingöngu í hitabeltislöndum. Það er hægt að nota kóríander í staðinn en það er víst mjög líkt á bragðið og culantro.
** Einnig má bæta við gulum lauk, steinselju og engiferi.