Red beans & rice frá Louisiana

RED BEANS & RICE

Frá Louisiana

RED BEANS & RICE

Frá Louisiana

2/197


Image

Þáeru það Bandaríkin! Ég ætla að prófa að elda eina uppskrift frá Suðurríkjunum og eina frá Norðurríkjunum. Suðurríkin fá að vera á undan og það kom ekkert annað til greina en að prófa Red beans & rice!

Red beans & rice er klassískur hversdagsmatur frá Louisiana. Þessi réttur var eldaður á mánudögum vegna þess að þá var þvottadagur. Baunirnar gátu mallað í pottinum tímunum saman á meðan húsmæðurnar þvoðu þvott. Svo var beinið úr sunnudagssteikinni líka sett út í réttinn.

Í hefðbundnum Red beans er sem sagt svínakjöt eða Andouille pylsur. Ég ákvað að prófa að nota bulsur í staðinn til að fá smá reykt bragð og það var mjög gott!

Þetta er réttur fyrir þá sem eeelska baunir og þá sérstaklega nýrnabaunir. Í klassískum Red beans eiga að vera mexíkóskar rauðar baunir, ekki nýrnabaunir. Nýrnabaunir eru grófari en þessar mexíkósku. Ég leitaði að þeim um alla borg en fann því miður ekki. Látið mig vita ef þið rekist á þær! 

Image
Image
Image

Innihaldsefni

 

  • 250 gr. þurrkaðar nýrnabaunir *
  • 600 ml. vatn (+ meira eftir þörfum)
  • 3 sellerístilkar
  • Græn paprika
  • 2 - 3 hvítlauksrif
  • 1 gulur laukur
  • Lárviðarlauf
  • 1 tsk chiliflögur
  • ½ tsk óreganó
  • ½ tsk paprikuduft
  • ½ tsk timjan
  • 1 tsk salt
  • 1 tsk sykur
  • Svartur pipar
  • Olía til steikingar
  • Tómatur
  • Hrísgrjón
  • Bulsur 
  • Vorlaukur
  • Tabasco
  • * Í upprunalega uppskriftinni eru mexíkóskar rauðar baunir en ekki nýrnabaunir.

Image

Leiðbeiningar

 


1.
Leggið baunirnar í bleyti samkvæmt leiðbeiningum á pakka eða í a.m.k 10 klukkustundir.

2.
Hellið vatninu af baununum og skolið þær vel.

3.
Fínsaxið lauk, sellerí, hvítlauk og papriku. Hitið olíu á pönnu eða í stórum potti og mýkið grænmetið.

4.
Bætið baununum út á pönnuna/pottinn ásamt öllum kryddunum (nema saltinu og sykrinum) og 600 ml. af vatni. Alls ekki salta baunirnar á þessu stigi. Þá verða þær seigar.

5.
Setjið lok á pönnuna/pottinn og látið suðuna koma vel upp. Lækkið svo hitann og leyfið réttinum að malla í tvo klukkutíma.

6.
Hrærið af og til í baununum og bætið við vatni eftir þörfum. Þær eiga að sjóða allan tímann og lokið á alltaf að vera á. Rétturinn á að vera frekar þykkur en passið að hann verði ekki of þurr.

7.
Eftir tvo klukkutíma ættu baunirnar að vera tilbúnar. Þá megið þið bæta við tsk. af salti (eða meira eftir smekk) og tsk. af sykri. Fræhreinsið 1-2 tómata, skerið þá í litla bita og bætið út á pönnuna.

8.
Fjarlægið lárviðarlaufið. Takið hluta af baununum og búið til þykkt mauk og bætið aftur út í réttinn. Þá verður hann þykkari og betri. (Til dæmis með töfrasprota eða mortéli). Leyfið réttinum að malla í svolitla stund í viðbót.

9.
Skerið bulsur í sneiðar og steikið á pönnu þar til þær verða stökkar og fínar.

10.
Blandið bulsunum varlega saman við hvern skammt.

11.
Berið fram með hrísgrjónum, söxuðum vorlauk og Tabasco *

Uppskriftin gefur ca. 4 skammta

* Tabasco sósa passar einstaklega vel með Red beans & rice. Tabasco er einmitt frá Louisiana og hefur verið framleitt þar á sama stað frá árinu 1868.