7/197
pyttipannaer mjög einfaldur en virkilega góður sænskur heimilismatur. Hér er uppskrift að grænmetisútgáfu af pyttipanna. Grunnurinn í réttinum er alltaf kartöflur og laukur og svo má bæta við hvaða grænmeti sem er.
Það er lang þægilegast að nota afganga af köldu soðnu grænmeti enda er þetta svona afgangaréttur. Annars er best að skera allt grænmetið, nema laukinn, í smáa teninga, sjóða það í ca. 3 mínútur og kæla svo. Á meðan grænmetið er að kólna er laukurinn brúnaður upp úr smjöri eða olíu (eða blöndu af smjöri og olíu). Því næst er grænmetið steikt þar til það verður mjúkt og gullinbrúnt og svo saltað og piprað eftir smekk. Það tekur ca. 10 - 12 mínútur.
Með pyttipanna eru gjarnan borin fram steikt egg og rauðrófur. Svo er gott að strá graslauk eða steinselju yfir réttinn. Ég notaði steinselju í þetta skiptið en graslaukur er mikið betri.
Það er auðvelt að breyta þessu í vegan rétt. Sleppið bara smjörinu og eggjunum og bætið við tófúbitum.
Innihaldsefni
- 6 kartöflur
- ½ lítil rófa
- 1 gulrót
- 1 laukur
- Smjör eða olía til steikingar (helst smjör)
- Salt og pipar eftir smekk
- Graslaukur eða steinselja
- Súrsaðar rauðrófur (úr krukku)
- Egg (frá hænum sem fá að njóta útiveru)
Berið fram með rauðrófum og steiktum eggjum.
2 skammtar