Skírdagssúpa frá Þýskalandi

Image

SKÍRDAGSSÚPA

Frá Þýskalandi

25/197

SKÍRDAGSSÚPA

Frá Þýskalandi

SKÍRDAGSSÚPA

Frá Þýskalandi

25/197


Image

Páskarnireru byrjað á Eldhúsatlasnum og það er viðeigandi í upphafi dymbilviku að elda Gründonnerstagsuppe (eða skírdagssúpu) frá Þýskalandi.

Áður fyrr var fastað á skírdegi og einungis ein kjötlaus máltíð var borin fram þann daginn. Hin fagurgræna gründonnerstagsuppe er því borðuð á skírdag samkvæmt þessari gömlu hefð.

Græni liturinn á að tákna nýtt líf og endurnýjun eftir erfiðan vetur. Í þessari kristilegu súpu eiga að vera sjö grænar jurtir sem tákna síðustu orð Jesú á krossinum. Það er hægt að nota hvaða grænu jurtir sem er. Ég notaði til dæmis vorlauk, graslauk, steinselju, basilíku, spínat, grænkál og klettasalat og það var mjög fín blanda.

Þetta er meinholl, létt og bragðmild súpa. Ég bjó til brauðteninga úr súrdeigsbrauði sem pössuðu mjög vel með. Það er best að bera súpuna fram strax á meðan hún er enn skærgræn og falleg en liturinn dökknar með tímanum.

Image

Image

Innihaldsefni

 

 • 1 laukur
 • Stór sellerístilkur
 • Vorlaukur
 • 3 stórar kartöflur (ca. 250 gr.)
 • 2-4 hvítlauksrif
 • Grænmetiskraftur
 • Olía til steikingar
 • Sítrónusafi
 • Salt og pipar
 • 1L af vatni

Sjö tegundir af jurtum. Til dæmis:

 • Steinselja
 • Basil
 • Graslaukur
 • Grænkál
 • Spínat
 • Klettasalat
 • Vorlaukur


Image

Leiðbeiningar

 


1.
Skrælið kartöflur og skerið í bita, saxið lauk, hvítlauk og hvíta partinn af vorlauknum.

2.
Hitið olíu eða smjör í potti og steikið laukinn og vorlaukinn þar til hann verður mjúkur og hefur brúnast svolítið. Bætið því næst hvítlauk í pottinn og steikið í svolitla stund.

3.
Bætið vatninu, grænmetiskraftinum, kartöflunum og græna partinum af vorlauknum í pottinn. Sjóðið þar til kartöflurnar eru alveg tilbúnar.

4.
Takið væna handfylli af hverri jurt og saxið smátt (svo er alltaf hægt að bæta við). Munið að skera stilkana af grænkálinu.

5.
Setjið jurtirnar í pottinn og leyfið þeim að sjóða í örskamma stund. Maukið svo súpuna með töfrasprota eða í matvinnsluvél.

6.
Smakkið til með salti, pipar og örlitlum sítrónusafa.

7.
Ef þið viljið hafa súpuna þykkari getið þið bætt við kartöflum.

Berið fram með góðu brauði eða brauðteningum og söxuðum graslauk.

Fyrir fjóra.