Uppskrift frá Náttúrulækningafélagi Íslands

KARTÖFLUBOLLUR

Frá Íslandi

KARTÖFLUBOLLUR

Frá Íslandi

14/197


Image

égbraut lengi heilann um hvers konar réttur gæti talist hefðbundinn íslenskur grænmetisréttur. Grænmetissúpa var það eina sem kom upp í hugann en mér þótti það ekki nógu spennandi. Svo datt mér í hug að leita í smiðju Náttúrulækningafélags Íslands (NLFÍ) sem vann mikið brautryðjendastarf með fræðslu og sölu á grænmetisfæði.

Á heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði er mjög góður og nútímalegur grænmetisveitingastaður. En þar sem ég leita oftast að hefðbundnum grænmetisréttum ákvað ég að finna uppskriftir í matreiðslubók NLFÍ frá árinu 1968. Innan um uppskriftir að súrmjólkursúpum og gúrkum í hlaupi leynast margar hollar og góðar uppskriftir. Í bókinni er líka að finna ýmsan fróðleik um kosti grænmetisfæðis. Þar á meðal þennan texta sem á svo sannarlega við nú á dögum:

„Í þessu sambandi er vert að minna á þá alkunnnu staðreynd, sem virðist furðu lítill gaumur gefinn á alþjóða vettvangi, að á hverri flatareiningu ræktaðs lands má framleiða fæðu handa 10-20 sinnum fleira fólki, sé landið notað til ræktunar á kartöflum eða korni til manneldis heldur en eingöngu er framleitt kjöt. Væri þessi vitneskja réttilega hagnýt, þyrftu engin börn að gráta af sulti eða veslast upp og deyja af hungri eða efnaskorti. Það er til yfirfljótanlega nóg af ræktarlandi til að brauðfæða alla jarðarbúa sé það hagnýtt á réttan hátt.“

Ég prófaði þrjá rétti úr bókinni:

kartöflubollur

rauðrófusalat

grænkálssalat

Uppskriftirnar eru mjög retro, heimilislegar og bragðast vel. Réttirnir eru hollir og fljótlegir og ég mun án efa elda þá alla aftur.

Ég skrifaði upskriftirnar nokkurn veginn orðrétt upp úr matreiðslubók NLFÍ og breytti litlu. Í uppskriftunum í bókinni er ekki gert ráð fyrir salti, pipar, ediki eða öðru „óhollu kryddi“. Í bókinni segir þó að „húsmæðrum sé innan handar að salta einstaka rétti“ og þessi húsmóðir lét sitt ekki eftir liggja í þeim efnum.


Image

Kartöflubollur

 

  • 250 gr. soðnar kartöflur
  • 100 gr. blaðlaukur eða vorlaukur
  • 2 tsk. kartöflumjöl eða 1 msk heilhveiti
  • 1 egg (frá hænum sem fá að njóta útiveru)
  • Jurtakraftur
  • Salt og pipar eftir smekk

Kartöflur saxaðar ásamt blaðlaukur og látið í skál, kartöflumjölið/hveitið og eggið hrært út í. Mótað í bollur, brúnað ljósbrúnt á pönnu.

Matreiðslubók NLFÍ mælir með því að bera réttinn fram með soðnum kartöflum og hvítkálsjafningi en ég mæli frekar með rauðrófusalati, grænkálssalati og smátómötum.

Uppskriftin gefur ca. 6 bollur.



Image

Grænkáls- og rauðrófusalat

 

  • 225 gr. grænkál
  • Sítrónusafi eftir smekk
  • 1 msk olía
  • Rúsínur

Grænkálið er þvegið vandlega og saxað frekar smátt. Bragðbætt með sítrónusafa og olíu. Skreytt með rúsínum.

  • 2 rauðrófur
  • 1 epli
  • Ólífuolía
  • Sítrónusafi 
  • Salt og krydd að eigin vali
  • Fínt söxuð steinselja

Rauðrófur og  epli er rifið á rifjárni, salatsósu (t.d. ólívuolía, sítrónusafi, salt og krydd) blandað saman við og 1 tsk. af smábrytjaðri steinselju stráð yfir. Í stað steinselju má nota graslauk.