Danmörk: Vegan Smørrebrød

SMØRREBRØD

Frá Danmörku

SMØRREBRØD

Frá Danmörku

16/197


Image

Fyrstá dagskrá á nýju ári er að sjálfsögðu veganúar! Það eru Samtök grænmetisæta á Íslandi sem standa fyrir þessu þarfa átaki. Markmið veganúar er að vekja fólk til umhugsunar um áhrif neyslu dýraafurða og kynna kosti vegan fæðis fyrir heilsu, umhverfi og dýravernd.

Það hefur alltaf verið markmiðið að á Eldhúsatlasnum séu sem flestar uppskriftir án dýraafurða og veganúar er góð hvatning til að auka hlutfall vegan uppskrifta enn frekar.

Ég reyni oftast að finna hefðbundnar uppskriftir en nú langaði mig að taka klassíska uppskrift og breyta henni í vegan uppskrift.

Danskt smörrebröd varð fyrir valinu. Ég gerði fjórar vegan útgáfur af klassísku smörrebröd: Kartoffelmad , frikadeller og tvær gerðir með jurtakæfu. Þetta var allt gott en kartöflubrauðsneiðin var best (enginn lágkolvetnalífstíll hér). Aldrei hefði mér komið til hugar að útbúa brauðsneiðar með soðnum kartöflum og steiktum grænmetisbuffum...en það er ótrúlega gott!

Ég tók smurbrauðsgerðina mjög alvarlega og bjó sjálf til súrsaðar rauðrófur, gúrkur og lauk. Það heppnaðist mjög vel og mér fannst það mikið betra en það sem fæst út í búð. Svo er súrsun hin besta skemmtun. Ég mæli með því að prófa. 

Image
Image

1. Kartoffelmad


• Gott rúgbrauð eða súrdeigsbrauð
• Kartöflur
• Ólífuolía, vegan majónes eða vegan viðbit að eigin vali (& ef til vill Dijon sinnep)
• Radísur
• Laukur
• Vætukarsi, salat, spínat eða steinselja
• Hveiti eða kjúklingabaunamjöl
• Salt og pipar

Ef þið notið súrdeigsbrauð er best að rista það vel, smyrja það með Dijon sinnepi og dreypa á það ólífuolíu. Dreypið einnig ólífuolíu yfir kartöflurnar. Svo þarf að bera það fram strax.

Ef þið notið rúgbrauð er betra að smyrja með einhverju vegan viðbiti (t.d. earth balance smjöri).

1. Sjóðið kartöflur og leyfið þeim að kólna alveg. Skrælið kartöflurnar og skerið í frekar þunnar sneiðar.
2. Skerið laukinn í þunnar sneiðar, þekjið vandlega með hveiti eða kjúklingabaunamjöli og kryddið með salti og pipar. Setjið laukinn í sigti og hristið allt auka hveiti af.
3. Steikið laukinn í mikilli olíu þar til hann verður gullinbrúnn og stökkur. Setjið hann beint af pönnunni á eldhúspappír.
4. Skerið radísur í þunnar sneiðar.
5. Smyrjið brauðið, raðið álegginu fallega á það,kryddið með salti & pipar og dreypið ólífuolíu yfir. Einnig er gott að setja vegan majónes ofan á brauðið.
6. Skreytið með vætukarsa eða steinselju... eða einhverju grænu að eigin vali. Ég fann hvergi vætukarsa þannig að ég skar spínat í þunnar ræmur og stráði yfir.


2. Frikadeller


• Gott rúgbrauð
• Lítil grænmetisbuff (ég notaði Anamma basilbollur sem fást í Hagkaup)
• Earth balance smjör eða annað vegan viðbit
• Radísur
• Graslaukur
• Spínat eða annað salat
• Súrsaðar rauðrófur eða gúrkur
• Salt og pipar





1. Brúnið grænmetisbuffin á pönnu og leyfið þeim svo að kólna.
2. Skerið radísur í þunnar sneiðar og fínsaxið graslaukinn.
3. Smyrjið brauðið og raðið á það spínati/salati, grænmetisbuffum, radísum og súrsuðum rauðrófum eða gúrkum.
4. Stráið graslauknum yfir.
5. Kryddið með salti & pipar.


3. Leverpastej


• Gott rúgbrauð
• Jurtakæfa (ég notaði frá Tartex)
• Sveppir
• Olía til steikingar
• Súrsaður rauðlaukur
• Ferskt dill
• Salt og pipar





1. Steikið sveppi á pönnu, kryddið þá með salti&pipar og leyfið þeim að kólna.
2. Smyrjið brauðið með jurtakæfu.
3. Raðið sveppum, súrsuðum rauðlauk og dilli fallega á brauðið.
4. Kryddið með salti&pipar.


4. Leverpastej II


• Gott rúgbrauð
• Jurtakæfa (ég notaði frá Tartex)
• Súrsaðar rauðrófur
• Súrsaðar gúrkur
• Ferskt dill
• Salt og pipar





Hér þarf nú í raun engar leiðbeiningar. Það þarf bara að smyrja brauðið með jurtakæfu og raða álegginu fallega ofan á.

Tilbúið!