Túnis: Egg í sterkri tómatsósu

SHAKSHUKA

Frá Túnis

SHAKSHUKA

Frá Túnis

18/197


Image

Þáer röðin komin að Túnis! Ég prófaði réttinn ShakshukAsem eru egg soðin í sterkri tómatsósu á pönnu. Shakshuka er skemmtilegur og öðruvísi brunch réttur sem er auðvelt að búa til. Hentar einnig vel sem léttur kvöldverður og er víst frábær þynnkubani.

Rétturinn kom mér mjög á óvart og hann er svo sannarlega kominn til að vera. Ég bar eggin fram með þykkum ristuðum súrdeigsbrauðsneiðum, steinselju og fetaosti (það má þó alveg sleppa fetaostinum).

Ég mæli með því að nota íslenskan tómatgrunn í réttinn en það má að sjálfsgöðu nota hvaða niðursoðnu tómata sem er. Ég var mjög ánægð með að fá íslenska niðursoðna tómata á markað og svo eru þeir meira að segja í glerkrukkum en ekki í niðursuðudósum.

Að vanda koma eggin frá landnámshænunum í Þykkvabæ sem fá að njóta útiveru og lifa lífinu lifandi.




Image

Innihaldsefni

 

  • 4 egg (frá hænum sem fá að njóta útiveru og lifa lífinu lifandi)
  • 1 krukka tómatmauk 
  • 1 græn eða rauð paprika (ca. 200 gr)
  • Vel þroskaðir tómatar (ca. 100 gr)
  • 1 laukur
  • Ferskur chilipipar eftir smekk
  • 3 hvítlauksrif
  • 1 tsk cumin
  • ½ tsk paprikuduft *
  • ½ tsk hlynsýróp
  • 1 tsk salt (eða eftir smekk)
  • Ólífuolía
  • Steinselja
  • Gott brauð
  • Fetakubbur (má sleppa)**

* Það má að sjálfögðu nota mun meira cumin og paprikuduft en gefið er upp í þessari uppskrift. Mér þykir hins vegar gott að hafa sósuna frekar ferska og nota mikið ferskt chili.

** Ef þið notið fetaost þá þarf minna salt.



Image

Leiðbeiningar

 


1.
Saxið lauk, chili, hvítlauk, tómata og papriku.

2.
Hitið olíu á pönnu og steikið laukinn þar til hann verður mjúkur og hefur brúnast svolítið. Bætið því næst chili og hvítlauk á pönnuna og steikið í svolitla stund.

3.
Bætið paprikunni og tómötunum á pönnuna og steikið í stutta stund.

4.
Að lokum bætið þið tómatmaukinu og öllum kryddum (nema steinseljunni) út á pönnuna. Setjið lokið á og leyfið sósunni að malla í 15 mínútur.

5.
Þegar sósan hefur fengið að sjóða í 15 mínútur gerið þið fjórar litlar dældir í sósuna, brjótið egg í hverja þeirra og setjið lok á pönnuna. (Ef þið notið fetaost þá skuluð þið brytja hann smátt og dreifa í kringum eggin).

6.
Það fer eftir smekk hversu lengi þið hafið eggin á pönnunni. Ef þið viljið hafa rauðurnar fljótandi þá er nóg að hafa þau í 5 mínútur. Annars er eldunartíminn um 7 mínútur. Það er hægt að flýta fyrir með því að ausa sósunni ofan á eggin. Þá verða þau fyrr tilbúin.

7.
Stráið steinselju yfir réttinn og berið fram með þykkum ristuðum brauðsneiðum og meira chili.

Aðalréttur fyrir tvo . Léttur brunch fyrir fjóra.