Kóríandersósa frá Jemen

ZHUG

Frá Jemen

ZHUG

Frá Jemen

22/197


Image

Kóríandersósafrá Jemen, hvar hefurðu verið allt mitt líf?

Zhug er sósa/kryddmauk/chutney úr fullt af kóríander, grænum chilipipar og eiginlega engu öðru. Logandi sterk og ótrúlega fersk og góð. Það er (að sjálfsögðu) mjög sterkt og áberandi kóríanderbragð af sósunni og hún er fullkomin fyrir okkur sem elskum ferskt kóríander og chili.

Zhug passar líklega með öllu (ef þú elskar kóríander og chili). Sósuna er hægt að nota á samlokur og vefjur, með indverskum, mexíkóskum og tælenskum mat, með grillmat, út í pottrétti og súpur, á egg, út í jógúrtsósu og sem salatdressingu. Ég get líka borðað hana eintóma með skeið.

Í þessa uppskrift fóru tvö búnt af kóríander þannig að hún er ansi dýr en hún er mjög sterk þannig að maður notar lítið af henni í einu. Ég notaði bara fjóra græna chilipipra og fannst sósan ekki alveg nógu sterk. Næst ætla ég að nota að minnsta kosti sex.

Það er æsispennandi að fylgjast með brakandi fersku kóríander og chili breytast í heimsins girnilegustu sósu en forðist að horfa stíft ofan í matvinnsluvélina á meðan. Chilipiparinn gæti skotist í augun á ykkur og valdið hræðilegum sársauka. Hér tala ég af reynslu.




Image

Innihaldsefni

 

  • 2 búnt af fersku kóríander (stilkarnir líka)
  • 4 - 6 grænir chilipiprar*
  • 3 msk ólífuolía
  • 2 msk sítrónusafi
  • Smá cuminduft
  • Tvö eða fleiri hvítlauksrif
  • Salt eftir smekk (ég notaði ca. teskeið)

Það má nota færri eða miklu fleiri. Fræhreinsa eða ekki. Allt eftir smekk. 



Image

Leiðbeiningar

 


1.
Saxið innihaldsefnin gróflega og setjið svo í matvinnsluvél eða blandara. Athugið að kóríanderstilkarnir fara með.

2.
Blandið vel svo úr verði fíngert mauk. Bætið við örlitlu vatni ef þarf. Bara einni teskeið í einu svo maukið verði ekki of þunnt.

3.
Smakkið til með salti, sítrónusafa, hvítlauk og cumin.

Ég gleymdi því miður að mæla hvað uppskriftin gefur mikið magn en það voru á bilinu 3 - 4 dl. Það hljómar ekki eins og mikið magn en maður notar lítið af sósunni í einu. Geymist vel og lengi í ísskáp.