Búlgaría: Sirene Po Shopski

SIRENE PO SHOPSKI

Frá Búlgaríu

SIRENE PO SHOPSKI

Frá Búlgaríu

9/197


Image

Églét langþráðan draum rætast og tók landnámshænu í fóstur! Þetta er hún Eggertsína. Frá henni og hinum landnámshænunum í Þykkvabæ fæ ég 20 egg á mánuði. Eggertsína og vinkonur hennar fá að ganga frjálsar úti og vappa um túnið að vild. Þegar veðrið er vont leita þær skjóls inni í kofanum sínum. Eins og náttúran ætlaði verpa þær einu sinni á dag.

Búrhænur þekkja ekki veður, vinda og árstíðaskipti. Þær þekkja hvorki dag né nótt. Þær eru innilokaðar í búrum alla sína ævi og með gervilýsingu eru þær plataðar til að verpa allt að þrisvar á dag.

Af þessu tilefni ætla ég að elda tvær uppskriftir með landnámshænueggjum í þessari viku.

Sirene Po Shopski er ofnréttur með eggjum, fetaosti, tómötum og grillaðri papriku og er víst vinsæll hversdagsmatur í Búlgaríu. Rétturinn er bakaður í litlum leirpotti. Slíkur pottur er eflaust til á einhverjum íslenskum heimilum en hann tilheyrir klassíska búlgarska matarstellinu sem fólk tók gjarnan með sér heim úr sólarlandaferðum. Annars er auðvitað hægt að nota hvaða lokaða leirfat sem er, eða bara ofnfast mót með álpappír yfir. Búlgarskur sirene ostur er ekki fáanlegur hér á landi en það er vel hægt að nota fetaost í staðinn.



Image

Innihaldsefni

 

    • 250 gr. fetakubbur (fetaostur frá MS hentar ekki grænmetisætum)
    • 2 egg frá frjálsum hænum 
    • 2 grillaðar paprikur
    • 1 rauður chilipipar
    • 2 stórir tómatar
    • Steinselja
    • Ólífuolía
    • Svartur pipar 
    • Paprikuduft
    • Rifinn ostur eftir smekk


Image

Leiðbeiningar

 


1.
Byrjið á því að grilla paprikurnar í ofninum. Það þarf að gera með svolitlum fyrirvara.

2.
Hitið ofninn í  220 gráður. 

3.
Skerið tómatana í stórar sneiðar, grilluðu paprikurnar í litla bita og fetakubbinn í sneiðar

4.
Smyrjið botninn á eldföstu móti með svolítilli ólífuolíu.

5.
Raðið tómötunum, fetasneiðunum og paprikunni í nokkur lög í eldfasta mótinu (best er að nota lítið mót).

6.
Kryddið með pipar og paprikudufti og svo má strá svolitlu af rifnum osti yfir allt saman ef þið viljið.

7.
Setjið lok eða álpappír á fatið og bakið í ofni í 20 mínútur.

8.
Takið lokið af og brjótið tvö egg yfir réttinn. Lokið aftur og bakið í 10-20 mínútur. Bökunartíminn fer eftir því hvernig þið viljið hafa eggin.

9.
Takið fatið úr ofninum og leyfið því að standa í nokkrar mínútur.

10.
Gott er að strá ferskri steinselju yfir réttinn

 

Mér þykir óþarfi að salta þar sem fetaosturinn er mjög saltur. Berið fram með góðu brauði og salati. Súrsaður chilipipar passar líka vel með þessum rétti

Aðalréttur fyrir 2