Gado Gado frá Indónesíu

GADO GADO

Frá Indónesíu

GADO GADO

Frá Indónesíu

1/197


Image

veLkominá Eldhúsatlasinn!

Við þurfum að minnka kjötneyslu okkar. Það er brýnt umhverfis- og dýravelferðarmál. En það þarf ekki að vera leiðinlegt vegna þess að heimurinn er fullur af spennandi og fjölbreyttum grænmetisréttum. Tilgangurinn með þessari vefsíðu er að safna saman á einn stað, uppskriftum að hefðbundnum grænmetisréttum eða kjötlausum réttum frá 197 löndum. Það eru öll aðildaríki Sameinuðu þjóðanna + Palestína, Vestur-Sahara og Tíbet.

Fyrsta landið af 196 er Indónesía og rétturinn er Gado Gado. Þetta matarmikla salat er hefðbundinn götumatur í Indónesíu og samanstendur meðal annars af tófú, kartöflum, strengjabaunum, baunaspírum og bestu hnetudressingu í heimi.

Það eru venjulega soðin egg í Gado Gado en þeir sem eru vegan sleppa þeim bara og bæta við tófú eða kartöflum. Ég keypti ótrúlega góðar íslenskar gular strengjabaunir og bok choi, frá garðyrkjustöðinni Kinn í Hveragerði, sem gerði mikið fyrir réttinn og það er best að nota ferskt tófú. (Það er alltaf til ferskt tófú í Álfheimabúðinni.)

Ég eeelska þetta salat.

Image
Image
Image

Image

Innihaldsefni

 

  • 6 kartöflur
  • 4 egg (frá hænum sem fá að njóta útiveru og lifa lífinu lifandi)
  • 200 gr. strengjabaunir (ég mæli með íslensku strengjabaununum frá Kinn)
  • 150 gr. hvítkál
  • 150 gr. bok choi
  • 200 gr. ferskt tófú
  • 200 gr. baunaspírur
  • Ferskt kóríander eftir smekk
  • Grænn chilipipar eftir smekk
  • Muldar salthnetur

 Fyrir hnetudressinguna:

  • 1 hvítlauksgeiri (eða 10 ef þið viljið)
  • 2-3 tsk, af hrásykri
  • 130 gr. gróft ósætt hnetusmjör
  • 1-2 grænir chilipiprar
  • 2 lime (safinn)
  • 1 msk, tamarind mauk
  • 1-2 msk. sojasósa

Image

Image

Leiðbeiningar

 


1.
Byrjið á því að pressa vatnið úr tófúinu. Það er auðveldast að skera það í sneiðar, setja í sigti og hella heitu saltvatni yfir. Því næst er tófúið lagt inn í hreint viskustykki og pressað niður, til dæmis með trébretti og þungum potti, í að minnsta kosti 20 mínútur.

2.
Búið til dressinguna: Setjið öll innihaldsefnin í blandara og blandið þar til dressingin er orðin silkimjúk. Ég notaði 3 tsk. af sykri en þá má alveg nota meira. Ef þið notið ekki sykur myndi ég mæla með því að minnka limesafann. Smakkið dressinguna til með chili, lime og sojasósu eftir smekk. Ef hún verður of þykk þá er best að bæta við örlitlu vatni.

3.
Sjóðið kartöflur og egg.

4.
Skerið hvítkálið smátt og setjið í sjóðandi saltað vatn í ca. 30 sekúndur. Setjið í sigti og skolið með köldu vatni.

5.
Skolið baunaspírurnar vel og leyfið þeim að þorna.

6.
Snyrtið strengjabaunirnar og sjóðið í söltuðu vatni í ca. 3 mínútur. Setjið til hliðar og leyfið þeim að kólna

7.
Steikið tófúið þar til það verður stökkt og gullinbrúnt. Kryddið eftir smekk. (Ég saltaði það bara og setti smá cayenne pipar).

8.
Skrælið kartöflurnar og skerið í bita

9.
Skerið soðnu eggin í tvennt.

10.
Raðið innihaldsefnunum fallega saman og berið fram með hnetudressingunni.

Það er mjög gott að bæta við fersku kóríander, grænu chili og muldum salthnetum.

Fyrir fjóra