kolefnisspor einstaklings á Íslandi er alltof hátt. Við þurfum að minnka það verulega ef okkur á að takast að halda hnattrænni hlýnun innan 1,5°C markmiðs Parísarsáttmálans. Matarræðið eitt og sér losar 3,54 tonn CO₂ á hvern einstakling en losun þyrfti að minnka um rúman helming. Einfaldasta leiðin til að minnka kolefnissporið er að draga úr neyslu á kjöti og dýraafurðum. Eldhúsatlasinn ætlar að leggja hönd á plóg og leita leiða til að gera uppskriftirnar sem loftslagsvænastar!
Baráttan gegn matarsóun er stórt loftslagsmál. 1/3 allra matvæla sem eru framleidd í heiminum enda í ruslinu. Hver íslendingur sóar um 90 kg af mat árlega! Eldhúsatlasinn leitar skapandi leiða til að nýta allt sem er keypt og safnar saman uppskriftum og góðum ráðum frá öllum heimshornum sem miða að því að ekkert fari til spillis. Ótal klassískar uppskriftir hafa orðið til í heimiliseldhúsum þar sem skortur kynti undir sköpunarkraftinum.
Þaðgetur verið erfitt að gjörbreyta mataræðinu á einu bretti. Flestar uppskriftirnar á Eldhúsatlasnum eru VEGAN en hér eru líka uppskriftir fyrir þá sem nota mjólkurvörur og egg. Eggin eru undantekninglaust frá litlum búum þar sem hænurnar njóta útiveru og lifa lífinu lifandi. Varphænur, kjúklingar og svín á Íslandi dúsa langflest í verksmiðjubúum. Í þeirra heimi er engin náttúra. Þau fá aldrei að kynnast blæbrigðum árstíðanna. Veður og vindar eru ekki til. Þau þekkja jafnvel hvorki dag né nótt. Fá aldrei að líta glaðan dag. Það er í okkar valdi að sniðganga afurðir frá þessum búum.