Bollywood poppkorn

BOLLYWOOD

Poppkorn

BOLLYWOOD

Poppkorn

24/197


Image

égætla að gefa ykkur tvær uppskriftir að indversku poppkorni. Ég fékk svona masala poppkorn í bíó þegar ég bjó á Indlandi og það er ótrúlega gott! Poppið verður líka svolítið hollara vegna þess að það er svo bragðmikið og þá þarf ekki að salta eins mikið og venjulega. Þessi litla uppskrift telst nú varla með sem réttur frá Indlandi en ég er með indverska grænmetisveislu í bígerð og þær uppskriftir birtast von bráðar.

Það er mjög auðvelt að búa til Garam masala poppkornið og innihaldsefnin líklega til í flestum kryddhillum. Chaat masala útgáfan er aðeins flóknari. Því miður vantar tvö innihaldsefni í chaat masala blönduna mína og því er hún ekki alveg ekta. Ég finn nefnilega ekki svart salt og asafoetida í búðum hér. Það eru mikilvæg innihaldsefni en kryddblandan er samt mjög góð án þeirra. Amchoor (þurrkað og malað grænt mangó) er aðal innihaldsefnið og því má alls ekki sleppa. Amchoor fæst í Vietnam market.

Uppskriftirnar miðast við 50 gr. af poppmaís og gefa eina væna skál. Uppskriftin að chaat masala blöndunni dugir í nokkra skammta og geymist vel loftþéttu íláti.

Image

Image

garam masala popp

 

  • 50 gr. poppmaís
  • 2 - 3 msk olía
  • ½ tsk túrmerik
  • Cayennepipar eftir smekk*
  • 1 tsk garam masala
  • Salt og svartur pipar

*Ef þið viljið hafa poppið sterkt þá er ¼ tsk. af cayennepipar sennilega alveg nóg.



  • Blandið saman

    einni teskeið af garam masala, salti og nýmöluðum svörtum pipar eftir smekk.

  • Hitið olíu í potti

    Setjið poppmaísinn, túrmerikið og cayennepiparinn út í pottinn og blandið kryddinu vel saman við maísinn. Hristið pottinn af og til á meðan poppið er að poppast. Þegar það fara að líða nokkrar sekúndur á milli popphljóða er kominn tími til að taka pottinn af hellunni, annars er hætta á að kryddið brenni við.

  • Hellið heitu poppinu umsvifalaust í skál

    og stráið kryddblöndunni yfir. Best er að blanda henni saman við poppið með höndunum. Bætið við salti og svörtum pipar eftir þörfum.



Image

chaat masala popp

 

  • 50 gr. poppmaís
  • 2 - 3 msk olía
  • 3 msk cuminfræ
  • ½ msk kóríanderfræ *
  • ½ msk fennelfræ *
  • 1 tsk þurrkuð mynta
  • ½ tsk malað engifer
  • 1 ½ msk. amchoor  **
  • Cayennepipar eftir smekk
  • 1 tsk garam masala
  • 1 tsk salt
  • Svartur pipar

* Það má líka nota malað cumin, kóríander og fennel.

** Malað og þurrkað grænt mangó. Fæst í Vietnam market.



  • Byrjið á að

    rista cuminfræ, kóríanderfræ og fennelfræ á pönnu þar til þau fara að ilma. Steytið kryddin í mortéli eða malið þau t.d. í kaffikvörn. Blandið öllum hinum kryddunum saman við.

  • Setjið olíuna í pott og hitið hana vel.

    Stillið á miðlungshita og setjið poppmaísinn út í. Hristið pottinn af og til á meðan poppið er að poppast. Þegar það fara að líða nokkrar sekúndur á milli popphljóða er kominn tími til að taka pottinn af hellunni.

  • Hellið heitu poppinu umsvifalaust í skál

    og stráið ca. matskeið af chaat masala yfir. Best er að blanda kryddblöndunni saman við poppið með höndunum. Bætið við salti og svörtum pipar eftir þörfum.