Tilgangurinn

Við þurfum að minnka kjötneyslu okkar. Það er brýnt umhverfis- og dýravelferðarmál. En það þarf ekki að vera leiðinlegt vegna þess að heimurinn er fullur af spennandi og fjölbreyttum grænmetisréttum. Tilgangurinn með Eldhúsatlasnum er að finna og elda uppskriftir að hefðbundnum grænmetisréttum eða kjötlausum réttum frá 196 löndum. Það eru öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna + Palestína, Vestur-Sahara og Tíbet.

Ég heiti Harpa og þessi vefsíða var lokaverkefni mitt í MA námi í Hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands.


Umhverfisvernd

Framleiðsla á kjöti og dýrafurðum er ábyrg fyrir að minnsta kosti 14,5 % af losun gróðurhúsalofttegunda. Það er meira en allir heimsins bílar, flugvélar, lestar og skip losa samanlagt. Minnkun á neyslu kjöts og annara dýraafurða myndi draga úr mengun, vernda náttúruauðlindir, hlífa vatnsbirgðum og jafnvel draga úr hungri í heiminum. En eftirspurn eftir kjöti og dýraafurðum er sífellt að aukast og framleiðslan krefst sífellt meira vatns, orku, fóðurs og landsvæðis. Þetta hefur alvarlegar afleiðingar fyrir umhverfið, náttúruauðlindir og fæðuöryggi fátækra, svo ekki sé minnst á þá milljarða dýra sem eru þungamiðjan í iðnvæddum landbúnaði.

Dýravernd

Mikil eftirspurn eftir ódýru kjöti og dýraafurðum hefur ýtt undir aukinn verksmiðjubúskap hér á landi. Í verksmiðjubúum lifa dýrin við ónáttúrulegar aðstæður þar sem þau geta ekki viðhaft eðlilegt atferli sitt. Þar er engin náttúra, enginn gróður, engin dagsbirta og ekkert ferskt loft. Jafnvel ekki nægt pláss til að hreyfa sig eða friður til að hvílast.

Svína, kjúklingja- og eggjaframleiðsla hér á landi fer nær eingöngu fram með verksmiðjubúskap þar sem velferð dýra er fórnað fyrir lægra vöruverð.

Neytendur hafa vald og þeir geta haft mikil áhrif. Til dæmis með því að velja meira grænmeti á kostnað dýraafurða, sniðganga afurðir sem framleiddar eru í verksmiðjubúskap og borga meira fyrir afurðir sem eru framleiddar með velferð dýra að leiðarljósi.


Uppskriftirnar

Á Eldhúsatlasnum er markmiðið að hafa sem flestar uppskriftir án dýraafurða. Þær uppskriftir sem henta vegan verða merktar sérstaklega með (V) og þær má einnig finna undir flokknum Vegan í leiðarkerfinu. Uppskriftir sem má mjög auðveldlega breyta í vegan eru einnig merktar með (V). Sumar uppskriftanna innihalda egg og mjólkurvörur. Hér á landi eru því miður afar fáir valkostir í boði fyrir þá sem vilja kaupa lífrænt vottaðar eða velferðarvottaðar dýraafurðir.

Biobú og Skaftholt í Gnúpverjahreppi framleiða lífrænar mjólkurvörur og osta með ostahleypi úr jurtaríkinu. Egg frá lausagönguhænum (e. Free Range) er hægt að kaupa í bændamarkaði frú Laugu og stundum í Fjarðarkaupum. Landnámshænurnar í Þykkvabæ fá að ganga frjálsar úti og þar er boðið upp á að taka hænu í fóstur og fá egg í áskrift.

Eldhúsatlasinn tók landnámshænuna Eggertsínu í fóstur og eru eggin í uppskriftunum alltaf frá frjálsum hænum.Hafðu samband!Eldhúsatlasinn er nýtt verkefni og eru allar ábendingar og athugasemdir vel þegnar. Hafðu endilega samband ef þú hefur áhuga á samstarfi.