Bakaður fetaostur

FETA PSITI

Frá Grikklandi

FETA PSITI

Frá Grikklandi

20/197


Image

Þáer röðin komin að Grikklandi! Ég ætla að prófa að elda nokkra gríska rétti og þessi smáréttur er góð byrjun. Feta Psiti er ótrúlega einfaldur og stórkostlega góður forréttur. Þegar ég fann uppskriftina skildi ég ekki hvers vegna mér hafði aldrei dottið þetta sjálfri í hug. Þetta er bara bakaður fetaostur með chiliflögum, óreganó og ólífuolíu. Borinn fram með góðu brauði og ferskum tómötum. Mjög sniðugur forréttur eða smáréttur til að deila.

Það eina sem þarf að gera er að dreypa ólífuolíu á fetakubb, setja á hann fullt af chiliflögum og svolítið óreganó og baka í ofni í 10 - 15 mínútur. Feta Psiti þarf að bera fram og borða um leið og hann kemur heitur úr ofninum.

Hér á landi eru því miður afar fáir valkostir í boði fyrir þá sem vilja kaupa lífrænt vottaðar eða velferðarvottaðar dýraafurðir. Nú eru á Íslandi að minnsta kosti tvö mjólkurbú þar sem kýrnar fá ekki einu sinni að njóta sumarbeitar. Svo ekki sé minnst á enn alvarlegri brot á dýraverndarlögum. Í fyrrasumar var kúabóndi fyrir norðan kærður fyrir dýraníð eftir að hann misþyrmdi ungri kvígu og drap með hrottalegum hætti.

Það er afar slæmt að neytendur geti ekki sniðgengið þessi bú sérstaklega og það er augljóslega brýn þörf fyrir velferðarvottun á dýraafurðir!

Biobú og Skaftholt í Gnúpverjahreppi einu framleiðendur lífrænna mjólkurafurða hér. Á vefsíðu Biobús er framleiðslunni svo lýst að velferð dýra sé eitt megin þema lífrænnar framleiðslu. Höfuðreglan er sú að húsdýrin hafi þá aðstöðu að geta notið eðlislægrar hreyfingar og hafi aðstöðu til útiveru allt árið um kring. Þar er sagt að lífrænn landbúnaður ætli dýrum betri aðbúnað en lög og reglur segja almennt til um. Mjólkurkýr sem eru bundnar á bása yfir vetrartímann eiga að komast út eins oft og kostur er og aðstæður leyfa. Þær eiga að hafa nægt pláss til að hreyfa sig frjálslega, njóta útiveru allan ársins hring, eiga mjúkt og þurrt legupláss, hafa næga birtu og félagsskap af hver annari.

Image


Image

Innihaldsefni

 

  • Fetakubbur
  • Chiliflögur
  • Óreganó (ferskt eða þurrkað)
  • Góð ólífuolía
  • Smátómatar
  • Gott brauð


Image

Leiðbeiningar

 


1.
Hitið ofninn í 225 - 250 gráður.

2.
Setjið fetakubbinn í ofnfast mót og stráið yfir hann chiliflögum eftir smekk (því meira því betra segi ég) og svolitlu óreganó. Skvettið svolítilli ólífuolíu yfir.

3.
Bakið ostinn í 10 - 15 mínútur eða þar til hann verður alveg mjúkur í gegn. Setjið grillið á seinustu tvær mínúturnar ef þið viljið hafa hann svolítið grillaðan.

4.
Skerið niður smátómata og brauð með góðri skorpu eða gott pítubrauð.

5.
Takið úr ofninum og berið fram strax með brauðinu og tómötunum.